Wednesday, July 6, 2016

111. FIMMTI Í EM. FRAKKLAND - ÍSLAND

Það fór ekki svo að Ísland yrði að ævilöngu atriði á EM í fótbolta en ansi er maður nú samt ánægður með árangurinn. Leikurinn við firnasterka Frakka tapaðist þó óþarflega stórt en snemma varð ljóst að franska liðið hafði farið vel yfir leik íslensku strákanna. Dagsskipunin var augljóslega að bíða aðeins og leyfa íslenska liðinu að koma framar á völlinn þar sem auðveldara yrði að sækja hratt á þá í fáliðaðri vörninni. 8 liða úrslit er stórkostlegur árangur og ólíklegt að það verði toppað í náinni framtíð hjá íslenska liðinu.


Liðið er komið heim og fékk að sjálfsögðu höfðinglegar móttökur við heimkomuna og heimildir herma að á á þriðja tug þúsunda manns hafi mætt á Arnarhól til að fagna hetjunum.


Næsta mál er að koma sér í gírinn fyrir undankeppni HM 2018 og þar má búast við enn erfiðari undankeppni en var fyrir EM. Ísland, Úkraína, Króatía, Tyrkland, Finnland og Kósóvó er í okkar riðli (I riðli) og fjögur af liðunum sex spiluðu á EM í sumar. Það eitt segir ansi margt um styrkleika I riðilsins og möguleika okkar á að komast upp úr honum. Til samanburðar er til dæmis bara eitt lið sem var á EM í H riðli. Veit að það er ekki vinsælt að segja það en líkurnar á að komast á HM í Rússlandi eru hverfandi litlar. Það sem gæti þó hugsanlega hjálpað okkur er að í útileikjunum gegn Úkraínu og Króatíu mega ekki vera neinir áhorfendur. En það er annað mál.

ÁFRAM ÍSLAND!

Wednesday, June 29, 2016

110. FJÓRÐI Í EM. ENGLAND - ÍSLAND


Jæja! Enn er íslenska landsliðið að koma á óvart og hafa nú eignast aðdáendur um alla Evrópu í tonnatali eftir frábæran sigur á Englendingum, sem breska pressan er búin að vera að dunda sér við að slátra síðan dómarinn flautaði leikinn af. 2-1 urðu lokatölur leiksins og íslenska þjóðin er að rifna af stolti yfir árangri landsliðsins sem nú þegar hefur farið fram úr öllum okkar villtustu draumum.


Ísland er því komið í 8 liða úrslit á EM og er enn taplaust á sínu fyrsta stórmóti. Reyndar má nefna þá staðreynd að héðan í frá getur landsliðið ekki tapað nema einum leik á mótinu og á meira að segja möguleika á að fara taplaust í gegnum EM. Tæknilega er Ísland því aðeins þremur leikjum frá því að verða Evrópumeistari í knattspyrnu 2016.


En næsti mótherji er ekki heldur af lakara taginu og reyndar eru öll lið sem eftir eru gríðarlega sterk. Frakkland er andstæðingur Íslands í 8 liða úrslitum og þar er ljóst að um virkilega erfiðan leik verður að ræða. Besti leikur Íslands á mótinu fram til þessa var leikurinn gegn Englandi og ljóst er að liðið getur enn spilað mun betur og bætt sig. Það er reyndar engan veginn hægt að segja að íslenska landsliðið hafi átt slakan leik á EM, enda taplaust í fjórum leikjum, en enn hefur maður það á tilfinningunni að liðið hafi enn ekki sýnt sitt besta þó úrslitin fram að þessu séu bara frábær. Eitthvað segir manni að enn eigi Ísland eitthvað inni.

Alla vega, hvernig sem fer gegn Frökkum þá er ljóst að íslenska landsliðið er loksins komið endanlega á knattspyrnukortið í Evrópu og það verður virkilega gaman að sjá hvar Ísland verður statt á næsta styrkleikalista FIFA sem gefinn verður út eftir EM.

ÁFRAM ÍSLAND!

Sunday, June 26, 2016

109. ÞRIÐJI Í EM. ÍSLAND - AUSTURRÍKI


Það er óhætt að segja að íslenska landsliðið hafi komið skemmtilega á óvart í lokaleik riðlakeppni EM þar sem liðið tók upp á þeim ósköpum að vinna Austurríkismenn með tveimur mörkum gegn einu. Þar með er Ísland komið í 16 liða úrslit og gerði það með hreinum glæsibrag þótt ekki séu líklega allir jafn hrifnir af þeim fótbolta sem liðið hafði fram að færa. Dramatíkin sem boðið var upp á var í algjörum sérflokki og ólíklegt að endurtekning verði á slíkri gleðiframmistöðu í náinni framtíð. Ísland endaði í öðru sæti F-riðils en var raunar með jafn mörg stig og Ungverjar, sem urðu efstir, en með lakari markatölu. Portúgalar urðu svo í þriðja sætinu með nægilega góðan árangur þar til að komast einnig áfram í 16 liða úrslitin. Frábær árangur hjá íslenska liðinu og líklega fáir sem áttu von á að sjá liðið komast í 16 liða úrslit og hvað þá taplaust.

En hér má sjá lokastöðu F-riðilsins:
  1. Ungverjaland 3  1  2  0  6-4  5
  2. Ísland             3  1  2  0  4-3  5
  3. Portúgal         3  0  3  0  4-4  3
  4. Austurríki      3  0  1  2  1-4  1
Og þessir skoruðu mörk Íslands í riðlakeppninni:

Birkir Bjarnason
Gylfi Þór Sigurðsson
Jón Daði Böðvarsson
Arnór Ingvi Traustason



En næst er sem sagt komið að 16 liða úrslitunum og þar verður svo sannarlega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Framundan er nefnilega leikur Íslands gegn hálfu Tottenham liðinu, sem svona í daglegu tali er reyndar yfirleitt nefnt landslið Englands. Þarna er auðvitað dæmigerður bardagi Davíðs gegn Golíat og flestir líklega búnir að mynda sér fyrirfram skoðun um úrslit þessa leiks en það má alltaf láta sig dreyma. Í það minnsta ætla líklega flestir Íslendingar að njóta draumsins á meðan honum stendur.
ÁFRAM ÍSLAND!

Tuesday, June 21, 2016

108. ANNAR Í EM. ÍSLAND - UNGVERJALAND


Öðrum leik Íslandssögunnar á EM lokið og frammistaða dagsins var alls ekki svo slæm þó margir hefðu eflaust vilja sjá aðrar lokatölur. 1-1 varð niðurstaðan gegn Ungverjum en leiksins verður helst minnst fyrir leiðinlegan endi þar sem jöfnunarmark Ungverjanna kom á lokamínútunum. Tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar þar sem sumir töluðu um 1-1 sigur í fyrsta leiknum gegn Portúgölum og 1-1 tap gegn Ungverjum í öðrum leiknum. Þannig má segja að frammistaða liðsins fram til þessa sé á pari og 140 milljónir hafa bæst í kassann hjá KSÍ.

Árangur Íslands á EM fram til þessa er auðvitað algjörlega frábær og sú staðreynd að liðið er taplaust eftir fyrstu tvo leikina í riðlakeppninni er gjörsamlega framar öllum vonum. Auðvitað eru samt alltaf einhverjir sem gera óeðlilegar kröfur og vilja alltaf meira.


Það eina sem hafa ætti einhverjar áhyggjur af, á þessum tímapunkti, er hvort að liðið sé sprungið á limminu eftir þá miklu vinnu sem menn hafa lagt í varnarvinnuna fram til þessa. Breidd hópsins er ekki mikil og það hefur verið gríðarleg keyrsla á sama kjarnanum í fyrstu tveimur leikjunum þar sem mikil orka hefur farið í að verjast. Þannig hefur kannski líka svolítið gleymst að sækja. Menn hafa einmitt talað um hve mikilvægt sé að halda boltanum betur þannig að menn fái aðeins tækifæri til að slaka á inn á milli. Vonandi tekst það betur í síðasta leiknum gegn Austurríki þó að ekki megi heldur slaka of mikið á þessari vörn sem gefist hefur svo vel. Það má heldur ekki gleymast að andstæðingurinn gerir lítið á meðan íslenska liðið er með boltann. Þannig er það líka vörn. Leikurinn er algjör úrslitaleikur og vonandi bara sá fyrsti af nokkrum á næstu dögum. ÁFRAM ÍSLAND!

Wednesday, June 15, 2016

107. FYRSTI Í EM. PORTUGAL - ÍSLAND


Það er víst alveg óhætt að segja að frumraun Íslands á lokakeppni EM í fótbolta hafi ekki verið neitt sérstaklega amaleg. Jafntefli gegn Portúgal og Ronaldo fór að grenja af því að hann fékk ekki að gera allt sem hann langaði.

En gjaldkeri KSÍ hlýtur líka að vera ánægður með stigið því að þetta jafntefli tryggir sambandinu 70 milljónir aukalega í kassann. Enn eru a.m.k. tveir leikir eftir og sigur gegn Ungverjum á laugardaginn gæti fært KSÍ 140 milljónir í viðbót en það er sú upphæð sem landsliðin fá fyrir hvern sigur á EM. Og ef Ísland kemst í 16 liða úrslit fær sambandið að auki 210 milljónir í verðlaun og 350 milljónir fyrir að komast í 8 liða úrslitin. Reyndar var rúmlega einn milljarður í boði fyrir að tryggja sér sæti á mótinu en það er önnur saga. 

Nú er bara að halda áfram að njóta keppninnar í Frakklandi og gera allt sem hægt er til að vinna næsta leik á mótinu gegn Ungverjalandi. ÁFRAM ÍSLAND!


Thursday, April 28, 2016

106. ENN UM TOTTENHAM

Nú er farið að styttast ískyggilega í lok keppnistímabilsins á Englandi og líkurnar á að Leicester City hampi Englandsmeistaratitlinum veturinn 2015-16 verða varla mikið meiri. Liðið hefur náð að halda forskoti sínu á toppnum með reyndar aðeins misjafnlega miklum mun en helstu keppinautar þeirra hafa verið að missa af lestinni undanfarnar vikur - nema Tottenham. Mínir menn í Spurs hafa hangið aftan í Leicester síðustu vikurnar en eftir að hafa verið fimm stigum á eftir meistaraefnunum í þó nokkurn tíma, þá er bilið nú orðið sjö stig. Og aðeins þrír leikir eftir. Margir vilja meina að Leicester eigi ívíð erfiðari leiki eftir en það skiptir litlu máli núna. Allt eru þetta þó úrslitaleikir og hver einustu mistök geta verið dýrkeypt. Eitt dauðafæri sem ekki nýtist getur breytt unnum leik í jafntefli eða jafnvel tap og við það tapast tvö til þrjú stig. Leicester hefur enn þrjú tækifæri til að tapa öllum síðustu leikjunum en því miður gildir það víst sama um Tottenham.



Þó svo að Tottenham nái ekki að vinna deildina að þessu sinni þá hefur spilamennska og árangur liðsins í vetur verið algjörlega til fyrirmyndar. Margir vilja meina að liðið hafi spilað besta og skemmtilegasta fótboltann í vetur og sé þar af leiðandi besta liðið á Englandi í dag en það er reyndar ekki svo. Besta liðið endar með flest stig í lok tímabilsins og eins og stendur er það lið Leicester. Í lok tímabilsins er aldrei spurt sérstaklega um hvaða lið skoraði flest mörk, fékk á sig fæst, átti markahæsta leikmanninn, átti flest stangarskot og svo framvegis. Sigurvegarinn í lok mótsins verður alltaf það lið sem endar með flest stig. Þannig er líklegt að fjöldi jafntefla Tottenham í vetur eigi eftir að verða liðinu dýrkeypt þegar uppi er staðið. Einstaka leikur tapast líka oft á ósanngjarnan hátt. Lið getur verið með boltann 70% af leiknum, átt þrjú stangarskot, brennt af vítum eða öðrum dauðafærum en það eru alltaf mörkin sem telja. Það fæst ekkert fyrir stangarskotin eða færin sem ekki nýtast. Man Utd vann deildina oft með endalausum 1-0 sigrum í hundleiðinlegum leikjum og Leicester hafa einmitt einnig verið duglegir við það á undanförnum vikum.

En það má ekki taka það af Leicester að liðið á fyllilega skilið þá stöðu sem liðið er í og það er gaman að sjá Ranieri og félaga á toppnum fyrst Tottenham nær ekki titlinum. Og þó að 1-0 sigrar Leicester séu ekki skemmtilegir þá er liðið með ólíkt skemmtilegri stjóra en Man Utd var með á árum áður og reyndar enn. Ranieri er augljóslega toppmaður að öllu leiki.



Annars er best að kíkja aðeins á tölfræðilega yfirburði Tottenham í vetur - svona til gamans. Þannig getur maður í lok tímabilsins alltaf huggað sig við það að þó að Leicester hafi unnið deildina þá var Tottenham samt skemmtilegra!
  • Tottenham hefur skorað næstflest mörk (65) í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Tottenham hefur fengið á sig fæst mörk (26) í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Og þar af leiðandi er Tottenham auðvitað með besta markahlutfallið (39 í plús) í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur átt flest skot á markið í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur fengið flest færi í deildinni í vetur.
  • Tottenham er það lið sem hefur skorað flest mörk (18) úr föstum leikatriðum í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
Þetta eru þær tölfræðilegu staðreyndir þar sem Tottenham er með efstum liðum á lista og skipta alla jafna töluverðu máli. En liðið er líka að skora hátt á öðrum vettvöngum og eftirfarandi punktar gefa bara vísbendingu um hvernig framhaldið gæti orðið. Liðið mun örugglega halda áfram að banka á toppbaráttudyrnar ef sami mannskapur og stjóri fá frið til að gera eitthvað skemmtilegt.
  • Tottenham er með yngsta byrjunarliðið í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Harry Kane hefur skorað flest mörk (25) allra leikmanna í Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Dele Alli var kjörinn besti ungi leikmaðurinn í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
  • Cristian Eriksen hefur hlaupið mest af öllum miðjumönnum ensku deildarinnar í vetur - að meðaltali 12,2 km í hverjum leik.
  • Cristian Eriksen hefur lagt upp næstflest mörk af öllum leikmönnum ensku Úrvalsdeildarinnar í vetur.
  • Dele Alli hefur lagt upp flest mörk (7) fyrir einn mann (Harry Kane) af leikmönnum ensku deildarinnar í vetur.
  • Enginn varnarmaður í ensku Úrvalsdeildinni hefur brotið sjaldnar af sér (alls 9 sinnum) heldur en Toby Alderweireld í vetur. Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið dæmd á hann aukaspyrna í tæplega 700 mínútur.
  • Tottenham hefur tapað næstfæstum leikjum (4) af öllum liðum Úrvalsdeildarinnar í vetur og öllum með minnsta mun - 0-1, 0-1, 0-1 og 1-2.
  • Flestir leikir Tottenham í röð í vetur án taps voru 12 leikir. Liðið vann 6 leiki í röð í janúar og febrúar en það tímabil var þó ekki innan þessa 12 leikja taplausa ramma.
  • Tottenham á fjóra leikmenn í liði ársins í ensku Úrvalsdeildinni í vetur.
Maður bara skilur ekki af hverju Tottenham Hotspur er ekki löngu búið að tryggja sér sigur í ensku Úrvalsdeildinni veturinn 2015-16. En í það minnsta er árangurinn frábær þrátt fyrir allt. Meistaradeildarsætið er orðið nokkuð víst næsta vetur og framtíðin er björt hjá mínum mönnum.

ÁFRAM TOTTENHAM!

Thursday, March 24, 2016

105. JOHAN CRUYFF 1947-2016


Þá er Johan Cruyff fallinn frá og smám saman hverfa þeir á vit forfeðra sinna, stærstu knattspyrnusnillingar sögunnar, einn af öðrum. George Best, Eusobio, Di Stefano og Puskas og núna Cruyff. Þetta segir okkur bara hvað við eldumst.

Johan Cruyff lék a.m.k. tvisvar gegn íslenska landsliðinu en ég minnist þess þó ekki að hann hafi komið hingað til lands til að spila. Hér má þó sjá hann skora mark gegn Íslandi þann 29. ágúst árið 1973 á De Adelaarhorst í Deventer.


Leiknum lauk með 8-1 sigri hollenska liðsins og Cruyff skorar hér annað af tveimur mörkum sínum í leiknum gegn Diðriki Ólafssyni. Líklega er þetta Einar Gunnarsson við hlið Cruyff sem reynir að verjast.

Og til heiðurs kappanum skulum við einnig sjá myndband af honum með fallegum tilþrifum. Ef vel er að gáð má sjá Cruyff einmitt skora mark gegn Íslandi, árið 1973, eftir ca. 1 mínútu og 38 sekúndur í myndbandinu og annað örstuttu seinna í sama leik.

Wednesday, March 23, 2016

104. NOKKRIR LANDSLEIKIR GEGN BELGÍU

Undirbúningur landsliðsins okkar fyrir EM í sumar er nú að komast aftur á skrið og framundan er vináttuleikur Íslands gegn Danmörku annað kvöld en við vorum eitthvað búnir að hita upp fyrir þann leik með vel völdum landsleikjum. Hér má einmitt sjá það.


En hryðjuverkin í Brüssel í vikunni fá okkur til að staldra aðeins við og af gefnu tilefni ætlum við því að rifja aðeins upp gamla leiki Íslands gegn Belgíu. Það er nefnilega ótrúlega margt sem hægt er að finna á Internetinu ef maður nennir að leita.

Hér er sem sagt um að ræða link á belgíska síðu þar sem þrír leikir Íslands og Belgíu eru rifjaðir upp undir fyrirsögninni; Rode Duivels verloren nog nooit tegen IJsland. Á okkar ylhýra útleggst það eitthvað á þessa leið; Rauðu Djöflarnir (s.s. belgíska landsliðið) tapaði aldrei fyrir Íslandi. Um er að ræða smávægileg umfjöllun um þrjá leiki þar sem sjá má gömul myndbönd af viðureignum þjóðanna og sjálfsagt langt um liðið síðan íslenskir áhugamenn um knattspyrnu hafa litið augum þessi myndbrot. Flestir hafa þó líklega aldrei séð þetta.


Byrjað er á að rifja upp HM leik þjóðanna í Brüssel, laugardaginn 3. september árið 1977. Belgar sigruðu í þessum leik með fjórum mörkum gegn engu og íslenska liðið þótti ekki spila vel í þessum leik, utan Ásgeirs Sigurvinssonar sem var sá eini sem var í sama gæðaflokki og leikmenn belgíska liðsins. Hann átti til að mynda þrumuskot í þverslána.


Lið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum; Árni Stefánsson, Ólafur Sigurvinsson, Gísli Torfason, Marteinn Geirsson, Janus Guðlaugsson, Hörður Hilmarsson, Atli Eðvaldsson, Guðgeir Leifsson, Ásgeir Elíasson, Matthías Hallgrímsson og Ásgeir Sigurvinsson. Guðmundur Þorbjörnsson kom inn á sem varamaður í þessum leik.

Næst er það Ísland - Belgía í Reykjavík þann 8. september árið 1974. Þennan leik unnu Belgarnir með tveimur mörkum gegn engu og margir vildu meina að sá sigur hafi ekki verið sanngjarnt. Myndbandið af þessum leik er um 20 mínútna langt og inn í það eru fléttuð viðtöl við þjálfara og leikmenn belgíska liðsins.


Íslenska liðið var þannig skipað í þessum leik; Þorsteinn Ólafsson, Gísli Torfason, Jón Pétursson, Marteinn Geirsson, Jóhannes Eðvaldsson, Karl Hermannsson, Guðgeir Leifsson, Grétar Magnússon, Ásgeir Elíasson, Ásgeir Sigurvinsson og Teitur Þórðarson. Inn á sem varamaður kom Matthías Hallgrímsson.

Og að síðustu eru sýndar myndir úr leik liðanna fyrir undankeppni HM 58 sem fór fram miðvikudaginn 5. júní árið 1957. Þetta var reyndar ansi ójafn leikur sem endaði með 8-3 sigri heimamanna en staðan í leikhléi var hvorki meira né minna en 7-1! Þórður Þórðarson gerði tvö marka Íslands og Ríkharður Jónsson eitt.


Það var einmitt í þessum leik sem tveir leikmenn belgíska liðsins tóku víti saman, eins og löngu er orðið frægt.

Lið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum; Björgvin Hermannsson, Gunnar Leósson, Jón Leósson, Sveinn Teitsson, Kristinn Gunnlaugsson, Guðjón Finnbogason, Dagbjartur Grímsson, Ríkharður Jónsson, Þórður Þórðarson, Halldór Halldórsson og Þórður Jónsson.

Leiðinlegt að geta ekki sett myndböndin beint hér inn á BOLTABULL en það er um að gera að tékka á þessari síðu og skoða þessi myndbönd.

ÁFRAM BELGÍA!

Friday, March 18, 2016

103. ÁSGEIR SIGURVINSSON KLÆÐIST BÚNINGI BAYERN MÜNCHEN Í FYRSTA SINN?

Þann 17. júní árið 1981 var spilaður knattspyrnuleikur á Laugardalsvellinum, eins og reyndar gengur og gerist, en þar áttust við Valur og stjörnum prýtt úrvalslið sem Ásgeir Sigurvinsson stjórnaði. Ásgeir ætlaði reyndar sjálfur einnig að spila með þessu stjörnuliði en meiddist í bikarúrslitaleik Standard Liege og Lokeren í Belgíu nokkrum dögum áður. Um 11.000 manns mættu á völlinn þennan Þjóðhátíðardag en tilefni leiksins mátti rekja til 70 ára afmælis Vals þetta ár. Hér fyrir neðan má einmitt sjá þetta stjörnulið en leiknum lauk með sigri Vals 14-13 eftir vítaspyrnukeppni þar sem staðan var 2-2 eftir venjulegan leiktíma.


Aftari röð frá vinstri; Ásgeir Sigurvinsson, Halldór Einarsson, James Bett, J. Dardean, Z. Clueso, Magnús Bergs, Teitur Þórðarson, Atli Eðvaldsson, Albert Guðmundsson og Baldvin Jónsson. Neðri röð frá vinstri; Sigurður Dagsson, Janus Guðlaugsson, B. Hellman, Simon Tahamata, Arnór Guðjohnsen, Ólafur Sigurvinsson, Karl Þórðarson og T. Claesen.

Bikarúrslitaleikurinn í Belgíu var hins vegar síðasti leikur Ásgeirs með Standard áður en hann gekk í raðir Bayern München í Þýskalandi og hér fyrir neðan má sjá úrklippu úr Morgunblaðinu föstudaginn 19. júní þar sem kappinn klæddist búningi Bayern í fyrsta sinn.


Úrklippa þessi hékk lengi vel uppi við hjá Helga bróður, gulnuð og tætt af aðdáun á hetjunni, og er kannski enn til í fórum hans. Mogginn hreykti sér af því að birta fyrstu myndina af Ásgeiri Sigurvinssyni í Búningi Bayern Munchen en þrátt fyrir stöðuga viðveru úrklippunnar fyrir augum okkar, sem hana sáu daglega, yfirsást okkur illilega að ekki var um eiginlegan búning Bayern að ræða. Nei, Ásgeir klæðist þarna HENSON eftirlíkingu sem Halldór Einarsson sjálfur hefur væntanlega gaukað að honum í auglýsingaskini eftir að hafa klætt upp stjörnuliðið með sama merki. Merkilegt alveg...

Thursday, March 3, 2016

102. NÝJI LANDSLIÐSBÚÐINGURINN

Nú er loksins búið að opinbera nýja EM búning íslenska landsliðsins í knattspyrnu og segjast verður eins og er að þegar ég hélt að hlutirnir geti ekki versnað þá... ja þá einmitt versna þeir. Landsliðið hefur náð nýjum hæðum í ósmekklegheitum og Ísland á eftir að verða að athlægi á EM í sumar. 


Ég fullyrði að nýji landsliðsbúninguriinn er svo ljótur, að hann er alveg ljótur! Þ.e. mér finnst búningurinn svo innilega ljótur að hann gæti ekki verið ljótari og þó er úr mörgum ljótum landsliðsbúningum að velja.

Og ekki orð um það meir...

Friday, February 26, 2016

101. AÐEINS UM ENGLANDSMEISTARATITLASKORT TOTTENHAM HOTSPUR

Það er svo gaman að vera Tottenham maður þessa dagana að maður er eiginlega meira og minna flögrandi um á notalegu skýi, dag sem nótt, um þessar mundir. Enda er liðið í dauðafæri um að geta barist um Englandsmeistaratitilinn alla leið það sem eftir er tímabilsins. Sumir hlutlausir aðilar eru jafnvel farnir að vera svo bjartsýnir að spá þeim titlinum. Um helgina eigum við heimaleik við Swansea, síðan er útileikur gegn West Ham í miðri viku og svo er risaslagur á móti Arsenal á White Hart Lane um aðra helgi. Ef þessir þrír leikir fara allir á sem bestu hugsanlegu vegu (9 stig) þá verður ansi gaman að ímynda sér framhaldið. Allt er þetta þó undir okkar eigin mönnum komið og snýst auðvitað einnig um að okkar helstu andstæðingar misstígi sig. Ókei, ég veit að enn eru þrír mánuðir eftir af tímabilinu og einar 12 umferðir enn óspilaðar en er á meðan er.

Best að rifja aðeins upp árangur Tottenham í deildinni síðustu áratugina. Tottenham er eitt af aðeins sjö liðum Úrvalsdeildarinnar sem hafa verið með frá stofnun hennar tímabilið 1992-93. Hin sex liðin eru; Arsenal, Aston Villa (þeir fara líklega niður í vor), Chelsea, Everton, Liverpool og Man Utd. Tvisvar sinnum hefur Spurs endað í fjórða sæti deildarinnar og fimm sinnum í því fimmta en liðið hefur aldrei náð að vinna ensku Úrvalsdeildina. Reyndar eru aðeins fimm lið sem það hafa gert frá stofnun hennar fyrir 23 árum.

En það var líka líf fyrir ensku Úrvalsdeildina og baráttan um deildartitilinn hafði verið til í rúm 100 ár áður en Úrvalsdeildin kom til sögunnar. Enska deildarkeppnin hóf göngu sína haustið 1888 og Tottenham hóf keppni í 2. deild hennar árið 1908. Liðið komst upp í 1. deildina strax árið eftir og hefur að mestu verið í efstu deild síðan. Spurs hefur tvisvar unnið Englandsmeistaratitilinn og í fyrra skiptið sem það gerðist, tímabilið 1950-51, fögnuðu þeir sigri í deildinni strax í kjölfar þess að hafa unnið 2. deildina vorið á undan. Liðið varð efst með 60 stig en Man Utd var með 56 í öðru sæti og Blackpool með 50 stig í því þriðja. Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að á þessum árum var tveggja stiga reglan auðvitað enn í gangi.



Keppnistímabilið 1960-61 vann Tottenham síðan deildina í annað sinn og afrekaði það þá einnig að verða fyrsta enska félagið til að vinna tvöfalt á 20. öldinni - þ.e. deildina og enska bikarinn - FA Cup. Liðið vann einmitt Leicester í úrslitum bikarsins með tveimur mörkum gegn engu. Í deildinni hlaut Tottenham 66 stig, Sheffield Wednesday varð í öðru með 58 og Wolves í því þriðja með 57 en þess má geta að Spurs skoraði 115 mörk í leikjunum 42. Margir vilja meina að þetta hafi verið eitt albesta knattspyrnulið Bretlandseyja fram til þess tíma og var Tottenham jafnvel kallað lið aldarinnar.



Margir Íslendingar hófu að styðja Tottenham á þessum árum enda úrslit enska boltans og fréttir af honum birtar reglulega í íslensku dagblöðunum. Gaman að geta þess að samkvæmt fljótlegri könnun var fyrst minnst á knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur í íslensku dagblaði þann 6. júní árið 1934 en þá var sagt frá lokastöðu ensku 1. deildarinnar um vorið í Morgunblaðinu. Íslenskar getraunir hófu starfsemi sína á 6. áratugnum með leikjum úr dönsku og sænsku deildunum en voru svo með enska boltann yfir vetrartímann og þeir öðluðust strax mikilla vinsælda hér á landi. Og eftir að Keflavík drógst gegn Tottenham í Evrópukeppni félagsliða haustið 1971 byrjuðu margir Íslendingar að styðja liðið. Ég stefni einmitt að því að fjalla ítarlega hér um leiki Keflavíkur og Tottenham í haust þegar 45 ár verða liðin frá drætti þeirra í Evrópukeppninni.


Árangur Tottenham í ensku 1. deildinni eftir að liðið vann titilinn vorið 1961 var misjafn á næstu áratugum. Spurs var oftast með bestu liðum árin á eftir, lenti til dæmis í 2. sæti 1962-63, og þrisvar sinnum í 3. sæti en botninum var náð vorið 1977 þegar liðið féll niður í 2. deild. Tottenham fór reyndar upp strax vorið á eftir og hefur verið í efstu deild síðan. 1981-82 og 1982-83 hafnaði liðið í fjórða sæti deildarinnar en þrisvar á 9. áratug síðustu aldar afrekaði Tottenham síðan að lenda í 3. sæti. Keppnistímabilin 1984-85, 1986-87 og 1989-90 eru því bestu ár Spurs síðan þeir komu síðast upp úr næstefstu deild og um leið bestu tímabil sem ég sjálfur hef upplifað með liðinu sem stuðningsmaður.

En þó Englandsmeistaratitillinn hafi látið svolítið standa á sér hjá Tottenham þá hefur liðið síður en svo verið titlalaust í gegnum tíðina. Rúmlega 20 aðrir titlar bera vitni um það og hvorki meira né minna en 8 þeirra síðan að ég hóf að styðja liðið fyrir 37 árum. Englandsmeistaratitillinn hefur þó enn ekki látið á sér kræla á þeim tíma en kannski er bara óvænt komið að því núna...

Friday, February 19, 2016

100. ÍSLENSKAR AÐSTÆÐUR

Einhverjir voru að hneykslast á myndbandi sem birtist á fréttamiðlum um daginn þar sem leikmenn 3. flokks Fjölnis og Fram voru að spila leik á Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu. Á myndbandinu má sjá unga og spræka menn spila sinn leik á snævi þöktu gervigrasinu við Egilshöll og svolítilli snjókomu. 


Sumir voru að hneykslast á aðstæðunum og vildu meina að þær væru ekki boðlegar, hættulegar, ólöglegar og ég veit ekki hvað og hvað. Veit ekki alveg hvað menn eru að fara með þessu væli. Auðvitað voru þessar aðstæður ekki góðar en það hafa allir gott af því að kynnast aðeins einhverju öðru heldur en bara rennisléttu gervigrasi og logni inni í upphituðu knattspyrnuhúsi að vetrarlagi. Tökum frekar ofan fyrir þessum guttum að væla ekki yfir aðstæðunum eða að heimta að leiknum yrði frestað.


Flest lið úti á landi þurfa að æfa og spila við sambærilegar aðstæður og áður en knattspyrnuhallirnar risu þurftu öll félög (líka á höfuðborgarsvæðinu) að spila við þessar aðstæður. Og þá er ég bara að tala um veðrið. Það var ekki alltaf spennandi að æfa eða spila æfingaleiki á gegnfrosnum og holóttum malarvöllum í febrúar eða mars. Og lítið skánaði það þegar nær dró vori og malarvellirnir urðu að rennblautu forarsvaði. Fáir vældu yfir því eða spáðu í hvort það væri hetjuskapur eða karlmannlegt að spila við þessar aðstæður. Þetta var einfaldlega veruleikinn og það eina sem í boði var. Eins íslenskt og hægt var...

Friday, February 12, 2016

99. ÍSLAND - WALES 1981

Það er náttúrulega ekki hjá því komist að birta eftirfarandi vídeo sem nú hafa verið gerð aðgengileg á YouTube. Nefnilega frægur leikur Wales og Íslands sem fram fór á Wetch Field í Swansea þann 14. október árið 1981. Áður hefur verið minnst á þennan leik í gamalli færslu hér.

Myndbönd af leiknum eru í tveimur hlutum - fyrst fyrri hálfleikur...


Og svo sá seinni...


Það er mjög gaman að horfa á þennan leik tæplega 35 árum eftir að hann var spilaður og ekki bara að bera hann saman við nútíma knattspyrnu eins og hún er spiluð í dag, heldur líka að rifja upp einstaka leikmenn íslenska (og reyndar líka welska) liðsins. Ég var aðeins 12 ára þegar þessi leikur fór fram og man auðvitað vel eftir honum enda þá eitt stærsta afrek íslenskrar knattspyrnusögu. Á þessum árum tíðkaðist það ekki að sýna landleiki Íslands í beinni sjónvarpsútsendingu heldur þurfti maður að láta sér lynda að hlusta á hann í beinni útvarpslýsingu á einu útvarpsstöðinni sem í boði var á Íslandi á þessum tíma - Rás 1. Í minningunni man ég einhverra hluta vegna lýsingu Hemma heitins Gunn, seinni part þessa miðvikudags, á leiðinni austur fyrir fjall í gömlum Willis jeppa en sama hvað ég reyni þá finn ég ekki þann lið í útvarpsdagskránni þennan dag. Hlýtur að vera misminni.


Leikmenn íslenska liðsins stóðu sig flestir nokkuð vel í þessum leik og það er mjög nostalgíst að horfa á þessar gömlu hetjur birtast manni aftur á skjánum um 30 árum eftir að þeir lögðu skóna á hilluna frægu. Miðað við nútíma knattspyrnu virðist þetta welska lið nú ekkert sérstaklega sterkt á að horfa en afrek íslenska liðsins var engu að síðu gott. Ásgeir Sigurvinsson bar af á vellinum. Leikur hans var auðvitað ekki alveg hnökralaus en í þessum leik sér maður samt vel hversu góður leikmaður hann var. Arnór Guðjohnsen var þarna aðeins tvítugur að aldri og stóð sig einnig mjög vel en þeir leikmenn sem komu mér eiginlega mest á óvart í þessum leik voru þeir Marteinn Geirsson, Örn Óskarsson og Janus Guðlaugsson. Auðvitað man ég vel eftir þessum leikmönnum en einhverra hluta vegna sá maður þá aldrei með réttum augum vegna þess að á þessum aldri hafði maður svo mikla tilhneigingu til að horfa bara á stjörnurnar Ásgeir og Arnór spila. Slökustu leikmenn Íslands í þessum leik fannst mér hins vegar þeir Viðar Halldórs og Atli Eðvaldsson en sá síðarnefndi sást eiginlega ekki í leiknum, sem var mjög óvenjulegt fyrir hann. Undir lok leiksins kom 19 ára Walesverji inn á sem varamaður en breytti engu um gang hans. Þessi leikmaður hét Ian Rush.

En endilega kíkið á leikinn og góða skemmtun...

98. MÍNIR MENN

Enska Úrvalsdeildin í knattspyrnu er búin að vera í sérstæðari kantinum í vetur en það má að mestu leyti þakka óvæntu spútnik liði Leicester og Claudio Ranieri þjálfara þess. Lið, eins og Man Utd og Chelsea, sem verið hafa í toppbaráttunni á undanförnum árum eru miklu lélegri en áður og stuðningsmenn þeirra liða hér á landi hafa verið duglegir við að fullyrða að deildin sé lélegri fyrir vikið. Það er þó alrangt. Öll deildin verður ekkert lakari þótt tvö eða þrjú ágæt lið eigi slakt tímabil. Það koma alltaf önnur lið í stað þeirra á toppnum. Þrjú af fjórum enskum liðum fóru til dæmis áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar en það er sambærilegt við spænsku deildina og varla telst það lélegt.
Úrvalsdeildin í vetur er ekki eingöngu sérstök fyrir góða frammistöðu Leicester heldur er hún búin að vera óvenjulega jöfn og spennandi. Margir eru búnir að vera með yfirlýsingar um hvenær blaðran springi hjá liðinu og fæstir hafa enn minnstu trú á að það hampi titlinum. Leicester er reyndar núna komið með fimm stiga forskot á toppnum þegar heilar 13 umferðir eru eftir en það eru enn 39 stig á lið eftir í pottinum sem þýðir að það er einnig nóg eftir af leikjum til að misstíga sig. Blaðran getur því auðveldlega enn sprungið. Það gildir reyndar um öll liðin í deildinni. En staðan á toppnum er nákvæmlega svona í augnablikinu:
  1. Leicester        25  15  8  2  47-27  53
  2. Tottenham     25  13  9  3  45-19  48
  3. Arsenal          25  14  6  5  39-22  48
  4. Man City        25  14  5  6  47-26  47
  5. Man Utd         25  11  8  6  32-22  41
Topp 4 liðin virðast ætla að tryggja sér Meistaradeildarsætin í tíma og eyða frekar orkunni, í síðustu umferðunum, við að berjast um sjálfan titilinn. Síðustu árin hafa í mesta lagi verið tvö til þrjú lið að slást um sjálft efsta sætið en næstu fjögur - fimm lið hafa verið að berjast um þau eitt eða tvö Meistaradeildarsæti sem hafa verið á lausu. Toppbaráttan er því stórskemmtileg og flestir eru væntanlega fegnir því að ekki skuli vera eitthvert eitt yfirburðarlið sem er búið að klára deildina um jólin eins og raunin er til dæmis í Frakklandi. Þar er Paris St. Germain með svo mikla yfirburði að Monaco, sem er í öðru sæti deildarinnar, er stigalega séð jafn nálægt toppsætinu og Toulouse sem eru næstneðstir!

Sjálfur hefur maður auðvitað verið alveg í skýjunum yfir breyttu umhverfi í enska boltanum. Ekki einungis vegna slaks gengis Man Utd, Chelsea og Liverpool, heldur hafa mínir menn í Tottenham verið að blómstra á ekki á ósvipaðan hátt og Leicester. Liðið hefur á undanförnum árum verið að berjast við að hanga á topp fjórum og verið ýmist inni eða úti í Meistaradeildinni og meira að segja fjórða sætið hefur jafnvel ekki einu sinni dugað til að komast þar inn. Stjórn félagsins hefur verið að skipta um stjóra í brúnni nánast eftir vindátt og fæstir hafa þeir fengið tíma eða almennilegt tækifæri til að sýna hvað í þá er spunnið. Því fylgir auðvitað endalaust rót á leikmannahópnum, ný leikskipulög og áherslur, almennt rótleysi og pirringur meðal áhangenda og síðast en ekki síst þessi óhjákvæmilega nauðsyn á að þurfa að byrja allt frá grunni. Allt þetta hefur áhrif.



En eitthvað er öðruvísi núna. Mauricio Pochettino (sökun tíðra stjóraskipta var ég lengi vel ekkert að nenna að muna einu sinni hvað hann heitir) virðist hafa fundið þá réttu formúlu sem stjórn félgsins og eigandi sætta sig við og á meðan starf hans er ekki í hættu og þar af leiðandi engin pressa er auðvitað miklu þægilegra og betra að vinna og stjórna. Spurs er að blómstra undir hans stjórn og staða liðsins í öðru sæti deildarinnar er engin tilviljun. Tottenham ER raunverulega að berjast um enska Úrvalsdeildartitilinn. Það er langt síðan liðið hefur verið á þessum stað í deildinni á þessum tíma vetrar en í byrjun árs 2012 man ég þó eftir að Tottenham hafi verið í þriðja sætinu að reyna að hanga aftan í Manchester liðunum. Þá endaði liðið að lokum í 4. sætinu, 20 stigum á eftir Manchester liðunum og 1 stigi á eftir erkifjendunum í Arsenal en missti af réttinum á Meistaradeildarsætinu vegna þess að Chelsea (sem endaði í 6. sæti) hirti þá dollu og fékk því sjálfkrafa það sæti. Vá, hvað maður varð illur!


Lið Tottenham hefur haft fullt fram að færa til að réttlæta þessa stöðu. Liðið hefur vaxið jafnt og þétt í vetur og í rauninni hefur verið jafn og góður stígandi í liðinu alveg frá því að Pochettino tók við því. Auðvitað þurfti hann að aðlaga Tottenham að þeim leikstíl sem hann vildi sjá liðið spila, versla nýja leikmenn sem honum fannst henta þeim stíl og svo þurfti hann auðvitað að losa sig við þá leikmenn sem hann taldi sig ekki hafa not fyrir. Mórallinn virðist hafa verið tekinn föstum tökum og allir virðast vera ánægðir hjá félaginu. Liðið er það yngsta í deildinni og framtíðin er ótrúlega björt. Liðið fékk hinn 19 ára Dele Alli frá Milton Keynes og hann er að spila eins og engill. Harry Kane fór hægt af stað en hefur verið að raða inn mörkum jafnt og þétt síðan í lok október. Christian Eriksen, Eric Dier og Moussa Dembele hafa allir leikið mjög vel og vörnin með þá Jan Vertonghen og Toby Alderweireld taka allt. Og svo er Hugo Lloris fyrirliði auðvitað besti markvörðurinn í deildinni.



Spurs fór frekar rólega af stað í haust og tapaði fyrsta leik sínum í deildinni þannig að það tók smá tíma að átta sig á því hvað í liðinu bjó. Næstu þrír leikir fóru jafntefli en smán saman fóru stigin að safnast saman. Liðið lék 14 deildarleiki í röð án taps fram til 13. desember en þá kom heimskulegur ósigur á heimavelli gegn Newcastle. Þrír sigrar í næstu fjórum leikjum færðu liðið enn upp töfluna en þá kom tapleikur gegn toppliði Leicester. Í sjálfu sér engin skömm af því en samt óþarfi því okkar menn voru betri og tapið má alveg skrifa á reynsluleysi. Síðan þá hefur Spurs unnið alla þá fjóra leiki sem liðið hefur spilað og situr nú sem fyrr segir í öðru sætinu. Liðið hefur fengið á sig fæst mörk í vetur og margir vilja meina að vörnin sé sú sterkasta í deildinni. Í þeim 25 leikjum sem lokið er hefur Tottenham ekki fengið á sig mark í 9 þeirra og er með langbesta markahlutfallið. Þó Spurs hafi aðeins tapað þremur leikjum eru það líklega jafnteflin sem mest hafa skemmt fyrir liðinu í vetur. Níu jafntefli er of mikið fyrir lið í toppbaráttunni og geta orðið blóðug þegar upp er staðið.

Það er svo gaman að skrifa um Tottenham þegar vel gengur að ég ætla að hætta núna og koma með meira seinna...

Sunday, January 31, 2016

97. TALIÐ NIÐUR MEÐ DANMÖRKU

Nú styttist óðum í EM og Knattspyrnusamband Ísland kappkostar við að leggja lokafrágang á undirbúning íslenska liðsins fyrir sumarið. Öll sú vinna kostar mikla fjármuni og skipulagningu en eitt af mikilvægustu atriðum þess undirbúnings snýst um að finna hentuga mótherja í æfingaleikjum fyrir mótið og er nú loksins búið að klára það verkefni endanlega. Nú þegar hafa reyndar verið spilaðir tveir landsleikir, gegn Finnlandi og Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, þar sem "minni spámenn" íslenska liðsins fengu að spreyta sig og auka þannig möguleika sína á að komast í lokahópinn. Enn eru þó áætlaðir fimm æfingaleikir í viðbót og nú er loksins búið að negla þá alla niður með andstæðingum og leikdögum. Þessir leikir eru eftirfarandi:

31. janúar, Bandaríkin - Ísland
24. mars, Danmörk - Ísland
29. mars, Grikkland - Ísland
1. júní, Noregur - Ísland
6. júní, Ísland - Liechtenstein

Samkvæmt þessu fær landsliðið því einn kærkominn kveðjuleik á heimavelli stuttu fyrir EM og andstæðingarnir á Laugardalsvellinum það mánudagskvöld verður stjörnum prýtt lið Liechtenstein. Kannski ekki öflugasti mótherjinn en sennilega er leikurinn helst hugsaður sem létt æfing þar sem möguleiki á stórsigri gæti aukið sjálfstraust liðsins áður en til Frakklands verður haldið. Þetta er þekkt undirbúningsaðferð hjá bestu landsliðum Evrópu rétt fyrir lokakeppni EM og HM til að byggja upp sjálfstraust. Alla vega verður frekar óvenjulegt að sjá a.m.k. 10.000 áhorfendur á Laugardalsvelli gegn Liechtenstein!

Hinir fjórir andstæðingar Íslands fyrir EM teljast allir vera alvöru landslið þótt þeir séu ekki endilega mjög ofarlega á Heimslistanum. Bandaríkjamenn eru 32. sæti listans, Grikkir í 41., Danir í 42 og Norðmenn í 54. sæti. Ísland er í því 36. en Liechtenstein eru í 165. sæti Heimslistans.


Þessir æfinga- eða vináttuleikir eru ekki endilega mjög áhugaverðir, fyrir utan það að vera mikilvægur undirbúningur fyrir mótið, en reyndar verður að viðurkennast að leikurinn við Danmörku gæti orðið athyglisverður. Það verður að segjast eins og er að ekki hafa væntingarnar verið miklar gegn Dönum í gegnum tíðina þó stundum hafi þær bjartsýnisraddir heyrst að nú sé loksins komið að því að sigra þá. Það hefur þó aldrei gerst. Þessar þjóðir hafa mæst 23svar sinnum á knattspyrnuvellinum frá því að Íslendingar spiluðu sinn fyrsta landsleik á Melavellinum í júlí árið 1946 en þá sigruðu Danir einmitt með þremur mörkum gegn engu. Fjórum sinnum hefur okkur tekist að ná jafntefli gegn þeim (þrír þeirra fóru 0-0) en versta tapið er auðvitað hið nafntogaða 14-2 tap, í ansi ójöfnum leik, á Idrætsparken í Kaupmannahöfn árið 1967.



Kannski rétt að eiga umfjöllun um þann fræga leik inni.

Samanlögð markatala þjóðanna í innbyrðis viðureignum er 13-71 Dönum í hag og að meðaltali höfum við því fengið á okkur rúmlega þrjú mörk í leik gegn þeim. Síðasta markið sem Ísland skoraði gegn Danmörku var á Laugardalsvelli í september árið 2000 og síðan hafa þjóðirnar mæst fimm sinnum án þess að Ísland hafi skorað mark eða í heilar 530 mínútur. Á sama tíma hafa Danirnir skorað 16 mörk hjá okkur. Eyjólfur Sverrisson skoraði sem sagt síðasta markið (árið 2000) sem Ísland skoraði á móti Dönum en næsta mark þar á undan skoraði Matthías Hallgrímsson í október árið 1974!

Best að rifja upp fáeina Danaleiki til viðbótar...

Ísland og Danmörk hófu að mætast á knattspyrnuvellinum á nokkurra ára fresti eftir fyrstu viðureign þjóðanna í Reykjavík árið 1946. Iðulega sigraði danska liðið tiltölulega örugglega en reynsluleysi Íslands (sem aðeins spilaði einn til tvo leiki á ári í mesta lagi á þessum árum) og frumstæðar áhugamannaaðstæður komu í veg fyrir framfarir.


Þriðjudaginn 18. ágúst árið 1959 mættust þjóðirnar á Idrætsparken, í sinni sjöundu viðureign, að viðstöddum rúmlega 26.000 áhorfendum og þar kom íslenska liðið nokkuð á óvart. Leiknum lauk með jafntefli 1-1 en Skagamaðurinn Sveinn Teitsson kom Íslandi yfir eftir um hálftíma leik með viðstöðulausu skoti eftir sendingu frá Þórólfi Beck. Danska liðið jafnaði metin þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum en þar var að verki Henning Enoksen eftir mistök í íslensku vörninni. Annars var danska liðið töluvert betra í þessum leik en baráttumikill varnarleikur Íslands og markvarsla Helga Daníelssonar komu í veg fyrir tap.


Íslenska liðið var þannig skipað: Helgi Daníelsson, Hreiðar Ársælsson, Árni Njálsson, Garðar Árnason, Hörður Felixson, Sveinn Teitsson, Örn Steinsen, Ríkharður Jónsson, Þórólfur Beck, Sveinn Jónsson og Þórður Jónsson.



Og fleiri Danaleikir...

Árið 1972 mættust þjóðirnar á Laugardalsvellinum, nánar tiltekið mánudaginn 3. júlí, og slæmur varnarleikur íslenska liðsins var aðall þessa leiks. Reyndar verður að segjast eins og er að liðið leit alveg þokkalega út í fyrri hálfleiknum og sjaldan hefur íslenska landsliðið haft úr jafn miklu að moða gegn Dönum í einum hálfleik.



Sú hátíðlega stund þegar þjóðsöngvar landanna voru fluttir í upphafi hans breyttist reyndar í hálfgerðan skrípaleik á nokkrum sekúndum. Knattspyrnusambandið hafði, á einhvern hátt, náð að klúðra þessari heilögu athöfn með afskaplega einkennilegri útgáfu af þjóðsöng dönsku þjóðarinnar en aldrei þessu vant voru þjóðsöngvar þjóðanna leiknir af hljómplötum. Heimildum ber reyndar ekki alveg saman um hvernig klúðrið æxlaðist en einhvers staðar var talað um að hraði danska þjóðsöngsins hefði aukist um helming í miðjum klíðum. Í öðrum heimildum er minnst á einhverja jazz-útgáfu eða jafnvel dægurlag eða að syrpa af sjómannalögum hefði verið spiluð undir vandræðalegum augngotum um 9000 áhorfenda. Enn aðrar sagnir herma að partur úr 9. sinfóníu Beethovens hafi fengið að hljóma um Laugardalinn í stað Der er et yndigt land.



Alla vega... Leikurinn byrjaði með miklu fjöri á báða bóga og þegar Jack Hansen skoraði fyrsta markið eftir 23 mínútur, með diggri aðstoð íslensku varnarinnar, hafði íslenska liðið þegar fengið tvö dauðafæri auk annara ágætis tækifæra. Hermann Gunnarsson var í aðalhlutverki í sókninni en gekk ekki heill til skógar og þurfti að yfirgefa völlinn snemma leiks. Stuttu eftir danska markið jafnaði Guðgeir Leifsson metið með einhvers konar óviljamarki og eftir rúman hálftíma komst Ísland yfir með marki Eyleifs Hafsteinssonar. Allt leit þetta bara vel út á þeim tíma en danska liðið náði þó að jafna metin strax 2-2 með marki nýliðans Allan Simonsen. Og þannig var staðan í leikhléi.



Á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiksins fór hins vegar gjafmildi íslensku varnarmannanna upp úr öllu valdi og þeir Kjeld Bæk og Allan Simonsen þökkuðu fyrir sig með sitt hvoru markinu. Eftir það átti íslenska liðið enga möguleika og Heino Hansen bætti við fimmta markinu nokkrum mínútum fyrir leikslok og enn voru varnarmenn Íslendinga sofandi þó að þeir gæfu ekki Dönunum boltann beint í það skiptið. Fjórum af fimm mörkum danska liðsins mátti því skrifa beint á íslensku varnarmennina en þó var Sigurður Dagsson markvörður líklega besti maður liðsins.

Allan Simonsen skoraði því tvö mörk þarna í sínum fyrsta landsleik og fékk mikið hrós en hann átti seinna eftir að verða kjörinn knattspyrnumaður Evrópu. Annar nýliði, hinn 16 ára gamli Ásgeir Sigurvinsson, kom inn á sem varamaður hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik og stóð sig mjög vel. En annars var liðið þannig skipað: Sigurður Dagsson, Jóhannes Atlason, Ólafur Sigurvinsson, Einar Gunnarsson, Guðni Kjartansson,Marteinn Geirsson, Guðgeir Leifsson, Eyleifur Hafsteinsson, Teitur Þórðarson, Hermann Gunnarsson og Elmar Geirsson en inn á sem varamenn komu Eyjamennirnir Ásgeir Sigurvinsson og Tómas Pálsson.

Og einn Danaleikur í viðbót...

Þjóðirnar mættust á Laugardalsvellinum, í blíðskaparveðri að viðstöddum rúmlega 8000 áhorfendum, þann 28. júní árið 1978 og þar fengu Íslendingar gott tækifæri til að sigra lélegt lið Dana. Það tókst þó ekki og liðin skildu jöfn í frekar leiðinlegum knattspyrnuleik án þess að skora. Pétur Pétursson spilaði þarna sinn fyrsta landsleik og var af mörgum talinn besti maður vallarins en hann fékk t.a.m. algjört dauðafæri nokkrum mínútum fyrir leikslok sem hann náði þó ekki að klára. Teitur Þórðarson og Atli Eðvaldsson fengu einnig báðir ágætis færi sem ekki nýttust. Danirnir skoruðu reyndar mark í leiknum sem dæmt var af vegna rangstöðu en tekið var sérstaklega fram í öllum fjölmiðlum að línuvörðurinn hefði verið með hugann við eitthvað allt annað. Skoski dómarinn dæmdi markið af upp á sitt einsdæmi en allir á vellinum sáu að Daninn var langt fyrir innan.



Árni Stefánsson markvörður lét hafa eftir sér í leikslok að hann hefði aldrei haft eins lítið að gera í einum landsleik og flestir voru á þeirri skoðun að auðveldur sigur hefði unnist ef Ásgeir Sigurvinsson hefði átt heimangengt.




Danska liðið þótti ekki gott í þessum leik og einhverjum þóttu þeir grófir og tuðgjarnir. Þó voru í því leikmenn, sem voru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og áttu heldur betur eftir að slá í gegn. Frank Arnesen, Sören Lerby og Preben Elkjær Larsen gerðu það virkilega gott með Dönum seinna á sínum ferli og stóðu sig seinna frábærlega með Dönum bæði á Lokakeppnum EM og HM. Sören Lerby þótti bestur dönsku leikmannanna í þessum leik.



Annars var íslenska liðið þannig skipað í þessum leik: Árni Stefánsson, Gísli Torfason, Árni Sveinsson, Jón Pétursson, Jóhannes Eðvaldsson, Karl Þórðarson, Janus Guðlaugsson, Atli Eðvaldsson, Teitur Þórðarson, Guðmundur Þorbjörnsson og Pétur Pétursson. Hörður Hilmarsson kom inn á sem varamaður en á bekknum var einnig rúmlega 17 ára gutti sem hét Arnór Guðjohnsen en hann fékk ekki tækifæri í þessum leik.


Ísland og Danmörk mættust síðast á knattspyrnuvellinum þann 4. júní árið 2011 í undankeppni EM 2012 á Laugardalsvellinum en þetta var svolítið áður en hinn frægi uppgangur landsliðsins hófst. Lars og Heimir tóku ekki við liðinu fyrr en í ársbyrjun 2012 en nokkrir af eldri leikmönnum liðsins í dag léku þennan leik og almennt voru menn lítið spenntir fyrir íslenska liðinu á þessum tíma. Leikurinn fór 0-2 fyrir Danina en fyrri leikinn á Parken unnu þeir einnig en þá með einu marki gegn engu. Þjóðirnar mættust einnig í undankeppni EM 2008 og þá sigruðu Danir 3-0 á Parken og 0-2 í Laugardalnum. Næsti leikur þar á undan hafði tapast 6-0 þannig að almennt virðist ekki hafa verið mikið tilefni til bjartsýni nú seinni ár.

En á Skírdag vorið 2016 er tækifæri til breytinga. Danmörk er andstæðingur sem íslenskt áhugafólk um knattspyrnu hefur látið sig dreyma um að vinna í áratugi en aldrei tekist. Gamla herraþjóðin hefur haft tögl og hagldir í viðureignum þjóðanna frá upphafi og þrátt fyrir að oft hafi væntingar um annað, eru þær jafnan skotnar niður með skelli. Í því felst líklega helst þessi rómantík sem fylgir Danaleikjunum.

Það reiknar auðvitað enginn með að Ísland sé að fara að bæta mikið úr markatölunni 13-71 í þessum eina leik og ekki breytist tölfræðin (4 jafntefli og 19 töp) neitt verulega þó Íslandi tækist loksins að sigra einn leik gegn þeim. En hins vegar væri það afskaplega gott og gaman fyrir þjóðarsálina að fá eins og einn sigur - þó það væri ekki nema 1-0. 

Eða... kannski er þetta bara enn einn vonbrigðaleikurinn gegn Dönum þegar væntingarnar eru sem mestar...

En... ÁFRAM ÍSLAND!