Tuesday, July 8, 2014

94. N1-MÓTIÐ Á AKUREYRI

Búið að vera mikið að gera hjá okkur að undanförnu við að fylgjast með HM í fótbolta en þó ekki svo mikið að við gleymdum að skella okkur á N1 mótið víðfræga á Akureyri. Tumi er nú á seinna ári í 5. flokki og því síðasti séns fyrir hann að skella sér til Akureyris en hann stóð sig alveg feykilega vel líkt og á sama móti í fyrra.

Hann spilaði með F-liði Þróttar í frönsku deildinni á áðurnefndu móti og óhætt er að segja að lið hans hafi staðið sig vel þar. Veðrið var reyndar ekki alveg eins og best verður á kosið en eftir fjögurra daga vosbúð og kulda norðan heiða, spilaði liðið um þriðja sætið (af 18 liðum) í frönsku deildinni og vann þann leik.
 
Mótið byrjaði þó ekki vel hjá Tuma og félögum hans en fyrsti leikurinn á miðvikudeginum var á móti Val og sá leikur tapaðist með þremur mörkum gegn einu. Eftir á að hyggja má draga líkur að því að sá leikur hafi tapast af þeirri einu ástæðu að hópurinn var að hittast og spila sem lið í allra fyrsta skipti. Leikmenn liðsins voru ekki búnir að læra inn á hvern annan og hvernig best væri að pressa andstæðingana þannig að þær næðu ekki að sækja almennilega. En það lagaðist strax í næsta leik sem var á móti ÍBV en þar sigruðu Þróttarar með fimm mörkum gegn einu.


Fimmtudagurinn byrjaði á góðum 3-1 sigri á Njarðvík, næst var komið að 4-2 sigri á Völsungi frá Húsavík og deginum lauk með 5-1 sigri á liði Breiðabliks 1. Þarna var liðið komið á góðan skrið í frönsku deildinni og enn þrír leikir eftir í riðlakeppninni.

Á föstudeginum var fyrsti leikurinn gegn Dalvík/KV og hann vannst með þremur mörkum gegn engu. Þá var komið að því að spila gegn FH og enn unnu okkar menn og nú með sex mörkum gegn tveimur. Síðasti leikur riðlakeppninnar var svo gegn HK og hann vannst með tveimur mörkum gegn einu. Það var því ljóst að okkar menn myndu spila til úrslita gegn ÍR um 3. sætið í frönsku deildinni á laugardeginum. Valur og Þróttur enduðu reyndar bæði með 21 stig í efsta sæti riðilsins en Valsmenn voru með betri markatölu og léku því úrslitaleikinn.

Eins og áður sagði var veðrið ekkert sérlega spennandi mótsdagana en á laugardagsmorguninn var ekki nema 6 stiga hiti, grenjandi rigning og fjallstopparnir í nágrenninu voru hvorki meira né minna en snjóhvítir. Grasvellirnir voru orðnir svo blautir og tættir að ákveðið var að færa alla leiki laugardagsins yfir á gervigrasið.


Leikurinn um 3. sætið fór vel af stað hjá okkar mönnum og eftir að staðan var orðin 4-0 í hálfleik reiknuðu líklega flestir með að afgangurinn af leiknum yrði aðeins formsatriði. En það var öðru nær. ÍR minnkaði muninn í 4-3 og þannig endaði síðan leikurinn. F-lið Þróttar unnu því til bronsverðlauna í frönsku deildinni og náðu í raun besta árangri liða Þróttar á öllu N1-mótinu.


Hér er liðið en þeir eru, frá efri röð til vinstri: Kristófer, Eyjólfur, Steinar, Jóel, Jens Ingi og Tumi. Neðri röð frá vinstri: Anton, Aggi, Jónas og Guðjón.

Liðið spilaði því 9 leiki og tapaði aðeins fyrsta leiknum gegn Val, eftir það komu 8 sigurleikir í röð. Samtals skoraði liðið 33 mörk og fékk á sig 14 en Eyjólfur var duglegastur að skora og setti 14 mörk.

Tumi stóð sig líka virkilega vel og skoraði sjö mörk en auk þess átti hann tvö sláarskot, lagði upp nokkur mörk og átti næstsíðustu snertinguna í tveimur sjálfsmörkum andstæðinganna. Ég vil reyndar meina að annað þeirra (beint úr hornspyrnu) hefði farið inn án aðstoðar varnarmanns hins liðsins. Við mamma hans vorum virkilega stolt af kútnum og sjálfur má hann vel við una.

Systir Tuma, Móey, gisti með okkur mömmu hans á hótelinu á meðan á mótinu stóð og af því tilefni fá þau hér vídeó af sér. Það er samt eiginlega aðallega fyrir ömmu þeirra í Sviss.
 
 

Saturday, June 21, 2014

92. LEIKMENN TOTTENHAM Á HM

Nú eru liðnar fyrstu tvær vikurnar af HM 2014 og langt liðið á aðra umferð riðlakeppninnar, þannig að mótið er búið að fá að rúlla vel af stað. Keppnin fer stórvel í gang og töluvert meira hefur verið skorað af mörkum þessa fyrstu daga heldur en á fyrri mótum. Mótið er í raun og veru alveg stórskemmtilegt og hefur upp á að bjóða allt það sem knattspyrnuáhugamenn vilja sjá.


Tók eftir því þegar enski landsliðshópurinn var valinn fyrir Heimsmeistarakeppnina að ekki einn einasti leikmaður Tottenham var í hópnum og hugsaði reyndar með mér að ég minntist þess ekki að hafa upplifað slíkt áður. Enskir leikmenn Spurs hafa að jafnaði verið þetta 2-4 í hverri stórkeppni á undanförnum áratugum en þeir aðilar sem helst komu til greina fyrir þetta mót voru ýmist meiddir eða þóttu ekki hafa sýnt nægilega góða frammistöðu undanfarna mánuði. Það er líka bara fínt. Enska liðið er engan veginn sannfærandi og þessir tilteknu leikmenn Tottenham fá því kærkomið og gott sumarfrí í staðinn.


En það eru fleiri landsliðsmenn Tottenham á ferðinni heldur en bara hjá því enska. Okkur reiknast svo til að í heildina séu þeir líklega sjö talsins en einnig eru þó nokkrir fyrrverandi leikmenn liðsins á mótinu. Belgíska liðið á flesta fulltrúa Spurs á HM að þessu sinni eða þrjá talsins. Þetta eru þeir Jan Vertonghen, Mousa Dembele og Nacer Chadli, Paulinho er fulltrúi liðsins hjá Brasilíumönnum, Benoit Assou-Ekotto er hjá Kamerún, Hugo Lloris Frakklandi og Nabil Bentaleb spilar fyrir Alsír.

Af fyrrverandi leikmönnum liðsins má nefna að misjafnlega gengur þeim nú á HM. Cliff Dempsey og Giovani dos Santos hafa staðið sig vel með sínum landsliðum á meðan að Wilson Palacios hefur verið að sýna frekar lítið þroskuð tilþrif. Króatarnir og Íslandsvinirnir Modric, Corluca og Pletikosa hafa allir spilað lygnan sjó með sínu landsliði. Kevin-Prince Boateng er þarna einhvers staðar, Hélder Postiga og meira að segja Didier Zokora er enn að spila. Alls eru þetta 16 núverandi og fyrrverandi leikmenn Tottenham sem eru að spila á HM. Það gæti alveg verið verra.

Saturday, June 14, 2014

91. MEIRA AF FLOTTUM AUGLÝSINGUM

Veislan er byrjuð og frábærar fótboltatengdar auglýsingar streyma fram á sjónarsviðið. Hér er ein ansi flott frá Nike, í anda teiknimyndarinnar um Ratatouille, þar sem margir kunnir knattspyrnumenn sjást í nýju formi. Sumir þeirra eru einmitt í eldlínunni á HM en aðrir því miður ekki. Sjón er sögu ríkari...
 

Tuesday, June 10, 2014

90. HM BOLTINN 2014

Það er fastur liður fyrir hverja Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu að nýr bolti er kynntur til sögunnar. Boltinn í fyrstu 8 keppnunum var valinn á handahófskenndan hátt en á HM 1970 var þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas fenginn til að annast framleiðslu á keppnisboltunum og þeir hafa séð um það síðan. En hér má einmitt sjá alla opinberlega HM bolta Adidas frá upphafi.
 
 
Þess má til gamans geta að fyrir úrslitaleik fyrstu Heimsmeistarakeppninnar, árið 1930, settu bæði liðin í úrslitunum, Argentína og Uruguay, kröfu um að leikið skyldi með sinn bolta. Deilan var leyst á þann hátt að dómarinn ákvað að leikið skyldi með argentíska boltann í fyrri hálfleiknum en hinum uruguayska í þeim seinni. Argentína var yfir 2-1 í leikhléi eftir að þeirra bolti hafði verið notaður fyrri hlutann en í seinni hálfleiknum snerist dæmið við og Uruguay kláraði leikinn 4-2 með sínum bolta. Augljóslega skipti boltinn því máli.
 
HM boltinn árið 2014 heitir Brazuca og er framleiddur hjá fyrirtæki í Pakistan eins og svo mikið af þeim vörum sem Adidas kemur að framleiðslu að. Nafnið, Brazuca, var valið af yfir milljón fótboltaáhugamönnum frá Brasilíu en kosið var á milli þriggja tillagna. Hinar tillögurnar voru Bossa Nova og Carnavalesca en Brazuca hlaut tæplega 78% atkvæða.

Hann er að miklu leyti handgerður og er árangur tveggja ára hugmyndavinnu, rannsókna og prófa framleiðandans en blaðran og innvolsið kemur þó að grunninum til úr Adidas Tango 12 boltanum sem margir muna eftir frá EM 12. Brazuca boltinn er 437 grömm og 69 cm að ummáli og hér má sjá nokkrar myndir frá framleiðslu hans.





Og svo auðvitað líka bráðnauðsynlegt myndband fyrir þá sem vilja vera með þetta allt á hreinu.


Sunday, June 8, 2014

89. FLOTT ADIDAS AUGLÝSING

Enn styttist í HM og nú eru aðeins fjórir ómerkilegir dagar í að veislan hefjist. Við Tumi höldum upp á það með snilldar auglýsingu frá Adidas þar sem nokkrir kunnir kappar koma við sögu heima hjá David Beckham. Það er líklegt að Victoria hafi verið úti að versla!
 


Monday, June 2, 2014

88. ÁLITSGJAFAR SKOÐA BÚNINGANA Á HM

 
Nú eru ekki nema tíu dagar þar til sjálf Heimsmeistarakeppnin í fótbolta, stærsta veisla allra sannra knattspyrnuunnenda, hefst en að sjálfsögðu ætlum við Boltabulls-aðilar að fylgjast með henni eftir bestu getu.

Í þessari færslu ætlum við að skoða búninga liðanna í keppninni og rýna aðeins í möguleika landsliðanna með tilliti til smekkvísi, hönnun og litasamsetninga þeirra. 10 af liðunum 32, sem spila í lokakeppni HM, leika í Nike búningum, 9 eru í Adidas og 7 í Puma en hin 6 liðin deila jafnt með sér öðrum merkjum.
 
Faglegir álitsgjafar síðunnar eru að sjálfsögðu þeir Tumi og Garðar en sérstakt ráðgjafa- og sérfræðiálit, auk kvenlegs innsæis, var í höndum móður Tuma og eiginkonu Garðars, Silke Waelti.
 
Í A-riðlinum eru búningarnir heilt yfir frekar skrautlegir þó græni liturinn sé þar svolítið áberandi. Silke nefndi einmitt sérstaklega hve treyjurnar væru litríkar og ljótar hver á sinn hátt en almennt er hún hvorki hrifin af gulum eða grænum búningum. Og sá króatíski fannst henni eiginlega bara alveg vonlaus eins og reyndar þeim Tuma og Garðari fannst líka báðum. Tuma finnst hann eiginlega minna alltaf svolítið á dúk úr lautarferð! Annars var hann hrifinn af öllum hinum á meðan Garðari fannst bara sá brasilíski flottur þó hann hafi ekki verið hrifinn af hálsmálinu. Þeim síðarnefnda var líka alveg sérstaklega í nöp við þann kamerúmska, sem Tumi var hins vegar mjög hrifinn af.


B-riðillinn var greinilega auðveldari í meðförum og heilt yfir voru þar fleiri búningar sem álitsgjafarnir voru hrifnir af. Litirnir á búningunum í riðlinum eru allir frekar líkir þannig að líklega munu varabúningar liðanna vera notaðir í öllum leikjum riðilsins. Öll voru þau hrifin af hollenska búningnum og Silke finnst sá spænski aldrei klikka, enda Spánn það landslið sem hún heldur með í öllum keppnum. Hún var hvorki hrifin af þeim chileska né ástralska á meðan bæði Tumi og Garðar voru báðir hrifnir af þeim síðarnefnda. Garðari fannst reyndar allir búningarnir í riðlinu flottir og þá helst vegna einfaldleika síns og þar fannst honum sá ástralski bera af.


Fjölbreytileikinn í litavalinu er áberandi þarna og allir voru með búning Fílabeinsstrandarinnar efst á blaði í C-riðlinum en Tumi var einnig jafn hrifinn af Kólumbíu og Grikklandi. Reyndar fannst Silke sá fílabeinski ekki alveg jafn flottur og á HM 2010 og á sama máli var hún um þann gríska, sem henni fannst hálsmálið skemma svolítið núna. Garðar var ekki hrifinn af þeim gríska. Silke fannst sá guli, kólumbíski ljótur, eins og reyndar líka Garðari, en öllum álitsgjöfum fannst sá japanski ágætur.


Í D-riðlinum eru liðin með mjög hefðbundnum litum í treyjunum sínum, enda sígild landslið þar á ferðinni. Silke var hrifin af öllum búningunum í þessum riðli en fannst sá úrúgvæski samt bera af. Tuma fannst sá líka mjög flottur en hinum búningunum fannst hann ekkert sérstakir. Garðar var mest hrifinn af þeim enska vegna einfaldleika hans og hann var einnig frekar hrifinn af þeim úrúgvæska en fannst hálsmálið svolítið skemma heildarmyndina. Hann var ekki hrifinn af þeim ítalska. Einnig fannst honum Kosta Ríka búningurinn ljótur, enda svolítið í anda íslenska landsliðsins - líta út eins og eitthvað afgangs dót frá 9. áratug síðustu aldar.


E-riðillinn er mjög fjölbreytilegur í litunum en um leið með mjög einföldum búningum. Silke var einmitt á því máli og fannst allir mjög fínir nema sá ekvadorski. Einnig fannst henni hálsmálið á þeim franska aðeins skemma og því var Garðar líka sammála. Honum fannst sá franski samt svolítið töff og minna jafnvel eilítið á íslenska landsliðsbúninginn árið 1976! Garðar var líka mjög hrifinn af bæði svissneska og þeim hondúríska en ekvadorski búningurinn minnti hann fullmikið á Fjölni, Leiftur eða Grindavík og á því ekkert erindi á HM. Tuma fannst sá franski mjög flottur, svissneski fínn en hinir mjög óspennandi og þá sérstaklega hið risastóra H sem hefði alveg má útfæra eitthvað betur.


Liðin í F-riðlinum eru ekkert að eyða mikilli orku í of sterka eða áberandi litadýrð en þó sker Nígería sig svolítið úr. Allir álitsgjafarnir voru mjög hrifnir af argentíska búningnum og Silke fannst þessi riðill allur nokkuð flottur - meira að segja sá nígeríski þó hann væri grænn. Garðari fannst sá argentínski flottasti búningur keppninnar og hann var einnig nokkuð hrifinn af Bosníu-Hersegóviníu. Nígeríski væri bara alveg þokkalegur í hans augum en sá íranski frekar óspennadi. Tuma fannst sá argentínski mjög flottur en restin alveg hryllileg, svo haft sé eftir honum orðrétt.


Hér eru þrír af fjórum búningum frekar keimlíkir og ljóst að varabúningasettin verða líka mikið notuð í G-riðli. Silke fannst sá portúgalski mjög flottur og er alltaf mjög hrifin þegar tveir mismunandi rauðir litir eru saman í búning. Hún var líka hrifin af þeim þýska og fannst tilbreyting að vera með þennan rauða lit í stað sígildu fánalitina. Garðari fannst sá bandaríski eiginlega skárstur hér. Ghana væri fínn ef draslið við hálsinn væri ekki en Þýskaland og Portúgal fannst honum óvenju ófrumlegir þessa keppnina. Tuma fannst Ghana alveg fáránlega flottur en restin aðeins flott!


Og að lokum er það svo H-riðillinn rauðleyti og enn á ný má reikna með að varabúningurinn verði alls ráðandi í leikjum riðilsins. Silke var á þeirri skoðun að allir búningar riðilsins væru mjög flottir en sá Suður Kóreski kannski sístur. Garðari fannst búnigar Alsír og Rússlands nokkuð smekklegir en hinir tveir ósköp venjulegir og litlausir eitthvað. Tumi var hrifnastur af þeim rússneska og belgíska en þeir alsírsku og suður kóresku frekar óspennandi.

Í heildina voru álitsgjafarnir alræmdu með frekar ólíkar hugmyndir um smekkvísi búninga liðanna á Heimsmeistaramótinu og það má auðveldlega sjá á mati hvers riðils fyrir sig eins og sjá má. En oft voru þeir samt líka með svipaðar hugmyndir um smekk og þá kannski sérstaklega með ljótari búningana. Álitsgjafarnir voru einnig beðnir um að nefna sérstaklega þá búninga sem þeir fannst fallegastir og ljótastir í keppninni en einnig völdu þeir best og verst klædda riðilinn. Og þarna sést berlega hversu mismunandi smekkur þeirra var. Af þessu mætti ráða að erfitt yrði að fá heilstæða niðurstöðu um líklega Heimsmeistara með tilliti til fegurðar búninganna.

SILKE
Flottustu: Fílabeinströndin eða Holland
Ljótustu: Mexíkó
Best klæddi riðillinn: D-riðill
Verst klæddi riðillinn: A-riðill

TUMI
Flottustu: Kamerún eða Ghana
Ljótustu: Íran
Best klæddi riðillinn: A-riðill
Verst klæddi riðillinn: F-riðill

GARÐAR
Flottustu: Argentína eða Ástralía
Ljótustu: Kamerún
Best klæddi riðillinn: B-riðill
Verst klæddi riðillinn: A-riðill 


Saturday, May 31, 2014

87. SMÁ PONDUS Í DAG

Það hefur verið svo mikill tilfinnanlegur Pondus skortur í Fréttablaðinu að undanförnu að okkur fannst alveg bráðnauðsynlegt að bæta eilítið úr því.
 
Og auðvitað eru brandararnir bara fótboltatengdir...
 
 
Hér er svo hinn...


Sunday, May 18, 2014

86. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Það hefur ekki gefist mikill tími til að ljúka og gera upp Tippleik síðunnar en nú hefur enska Úrvalsdeildin lokið hlutverki sínu þennan veturinn og endanleg niðurstaða leiksins liggur því fyrir. Aðal orsök þessarar tafar er að sjálfsögðu til komin vegna fjölgunar í fjölskyldu þeirra BOLTABULLS manna en lítil fótboltastelpa ákvað að koma í heiminn, rétt fyrir síðdegiskaffið, þann 13. mars.
 
 
Líkt og svo oft í vetur fékk Tumi flest stig sérfræðinganna í síðustu umferðinni en að þessu sinni hlaut hann 10 stig en Helgi og Garðar fengu sitthvor 8 stigin. Heildarniðurstaðan varð því sú að Tumi varð sigurvegari leiksins með 233 stig, Garðar hlaut 220 stig og Helgi fékk 195 stig. Sá síðastnefndi var reyndar ekki með í fyrstu umferðinni en sú staðreynd breytir afar litlu um heildarniðurstöðu keppninnar.
 
Tumi hlýtur mynd af sér á síðunni að launum og hér má sjá hana.
 


Thursday, May 8, 2014

85. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Þá er komið að síðustu umferð vetrarins í enska boltans hjá Boltabulli og sérfræðingar síðunnar fá nú allra síðasta tækifærið til að láta ljós sitt skína. Um liðna helgi fengu þeir Tumi og Garðar sín sitt hvor 4 stig úr leikjum sínum á meðan Helgi fékk 2. Í vikunni var síðan spilaður frestaður leikur, frá því fyrr í vetur, sem fræðimennirnir höfðu þegar tippað á og úr honum fengu Tumi 3 stig, Helgi 2 og Garðar 1. Fátt virðist því geta komið í veg fyrir sigur Tuma í tippleik þessum en hann er nú kominn með 223 stig, Garðar hefur 210 og Helgi er nú með 186.
 
En hér koma síðustu leikir vetrarins:
 
TOTTENHAM - ASTON VILLA
Tumi: 1-1
Helgi: 2-1 Soldado lýkur glæsilegu tímabili með því að skora næstum því.
Garðar: 3-1 Sigur í lokaleik minna manna.
 
NORWICH - ARSENAL
Tumi: 0-1
Helgi: 0-4 Giroud 2, Cazorla, Özil.
Garðar: 1-3 Bara leiðindi enda ars að spila.
 
LIVERPOOL - NEWCASTLE
Tumi: 2-0
Helgi: 8-0 Suarez 3, Coutihno, Sturridge, Gerrard, Skrtel, Lucas.
Garðar: 2-1 Engar flugeldasýningar þarna.
 
HULL - EVERTON
Tumi: 0-2
Helgi: 1-2 Barkley með bæði.
Garðar: 1-2 Steindautt og leiðinlegur Lundúnaslagur.
 
MAN CITY - WEST HAM
Tumi: 3-1
Helgi: 1-0 Dzeko skorar í seinni hálfleik.
Garðar: 4-1 City klárar þetta með látum.
 
CARDIFF - CHELSEA
Tumi: 0-2
Helgi: 0-6 Sóknarlið Chelsea fer á kostum.
Garðar: 0-3 Cardiff fallið og ekkert í gangi þar nema svekkelsi.

Thursday, May 1, 2014

84. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Enn einu sinni nálgast helgin og ein af síðustu spám helstu sérfræðinga Boltabulls, um enska boltann, fer senn á öldur Internetsins. Tumi sigraði síðustu umferð með nokkrum mun og fékk heil 10 stig, Garðar var með 6 og Helgi fékk 5. Enn er Tumi því efstur og er nú með 216 stig, Garðar hefur 205 og Helgi er neðstur með 182.

En leikir næstu umferðar hljóma eitthvað á þessa leið:

WEST HAM - TOTTENHAM
Tumi: 0-1
Helgi: 1-2 Þrjú skallamörk.
Garðar: 1-3 Mínir menn eiga að vinna þarna. Skyldusigur.

MAN UTD - SUNDERLAND
Tumi: 1-2
Helgi: 2-2 Borini og Wickam halda áfram að skora og halda von Sunderland á lofti.
Garðar: 2-1 Leiðinlegt að segja það en ég held að Sunderland fari ekki að vinna Moylausa mu-ara á útivelli.

EVERTON - MAN CITY
Tumi: 1-2
Helgi: 1-1 Draumaúrslit og óskhyggja, ekki oft sem maður heldur með Everton.
Garðar: 1-3 City á þetta frá a-ö.

ARSENAL - WBA
Tumi: 2-0
Helgi: 2-0 Létt prógram hjá Gunners.
Garðar: 4-0 Það kæmi virkilega á óvart ef WBA gerði eitthvað sniðugt hérna.

CHELSEA - NORWICH
Tumi: 3-0
Helgi: 1-0 Rútubolti, munar engu að dómarinn flauti leikinn af vegna leiðinda.
Garðar: 4-1 Þetta verður líklega óvæntustu úrslit vetrarins.

CRYSTAL PALACE - LIVERPOOL
Tumi: 0-3
Helgi: 0-6 Liverpool gerir allt til að laga markatöluna. Frekar hefðbundið í markaskorun.
Garðar: 1-2 Palace er búið að vera á sæmilegu flugi síðustu vikurnar en Liverpul svindlar sig eitthvað í gegnum sigur dagsins. 


Friday, April 25, 2014

83. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Nú er farið að sjá fyrir endann á enska boltanum í vetur og spennan hjá sérfræðingum Boltabulls að ná efstu hæðum. Garðar varð efstur i síðustu umferð og fékk 10 stig, Helgi var með  8 og Tumi fékk 6 stig. Eitthvað virðist Tumi því vera farinn að gefa eftir í lokaumferðunum og hann verður að hafa sig allan við ef hann ætlar ekki að missa niður þá forystu sem hann hefur haft frá 1. umferð. Hann er þó enn efstur og hefur 206 stig, Garðar hefur 199 og Helgi er með 177 stig.
 
En ekki má gleyma leikjum næstu helgar:
 
SOUTHAMPTON - EVERTON
Tumi: 1-2
Helgi: 1-3 Bláliðar gefa ekkert eftir í baráttunni um Meistaradeildarsætið.
Garðar: 1-2 Prumpuleikur...
 
STOKE - TOTTENHAM
Tumi: 0-1
Helgi: 1-2 Soldado skorar enn og aftur ekki.
Garðar: 1-3 Að sjálfsögðu sigur hjá mínum mönnum.
 
MAN UTD - NORWICH
Tumi: 1-0
Helgi: 4-0 Nýtt og ferskt júnæted.
Garðar: 2-1 Mu vinnur Norwich en það hefur ekkert með brottrekstur Moy að gera.
 
LIVERPOOL - CHELSEA
Tumi: 1-1
Helgi: 3-0 Létt og löðurmannlegt, hvað sem löðurmannlegt nú þýðir.
Garðar: 2-1 Heppnissigur heimamanna gegn þeim bláklæddu.
 
CRYSTAL PALACE - MAN CITY
Tumi: 0-2
Helgi: 1-0 Skrifað í skýin.
Garðar: 1-2 Athyglisverður leikur en City slefar sigur.
 
ARSENAL - NEWCASTLE
Tumi: 2-0
Helgi: 5-1 Rendlingar geta ekki blautan.
Garðar: 4-0 Njúv er búið að tapa fimm leikjum í röð og fer ekki að taka upp á því að vinna Ars á útivelli núna.


Friday, April 18, 2014

82. GARETH BALE

Gareth Bale er allur að koma til, í veru sinni hjá stórveldinu Real Madrid, eftir að hafa tekið því rólega vegna meiðsla og almennra aðlögunar á sínum fyrstu mánuðum á Spáni. Í vikunni tók hann sig til og skoraði sigurmark liðsins gegn Barcelona í úrslitaleik spænska Konungsbikarsins og það mark var ekki beint af ódýrari gerðinni. 
 
 
En þetta er ekki fyrsta markið sem hann skorar með þessum sama hætti. Í æfingaleik gegn Íslendingum í vetur skoraði kappinn keimlíkt mark, þar sem hann brunaði upp kantinn á sambærilegan hátt og skoraði næsta auðveldlega. Eini munurinn er sá að gegn Íslandi óð hann upp hinn kantinn.
 
 
Í báðum þessum mörkum fær Bale boltann utan við miðlínu og brunar af stað upp kantinn með varnarmenn utan í sér sem reyna að þvinga hann út af vellinum. Gegn Barcelona er það miðvörðurinn Marc Barta sem hann á í höggi við en gegn Íslendingum er það Sölvi Geir Ottesen sem reynir að stöðva hann. Í báðum tilfellunum eru varnarmennirnir búnir að bola Bale a.m.k. 2 metra út fyrir hliðarlínuna en hann hristir þá næsta auðveldlega af sér að tekur sprettinn upp restina af vellinum. Ótrúlegur leikmaður...

81. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Þá er komið að páskaumferðinni hjá sérfræðingum BOLTABULLS en um síðustu helgi tók Helgi sig til og varð efstur með 6 stig, Garðar fékk 5 en Tumi rak lestina að þessu sinni. Hann er þó enn efstur í heildarkeppninni og hefur nú náð 200 stigum. Garðar er með 189 og Helgi er með 169 stig.
 
En hér koma leikir helgarinnar:
 
TOTTENHAM - FULHAM
Tumi: 1-0
Helgi: 3-2 Á maður ekki að segja að Eriksen skori öll þrjú tott, hann er sá eini sem getur eitthvað í þessu liði.
Garðar: 3-1 Mínir menn eiga að taka þetta í hádeginu en ég er samt pínu hræddur við Felix.
 
HULL - ARSENAL
Tumi: 0-2
Helgi: 1-2 Seiglusigur Arsenalla.
Garðar: 1-2 Ars slefar Húllarana í generalprufunni fyrir bikarúrslitin.
 
NORWICH - LIVERPOOL
Tumi: 0-3
Helgi: 1-4 Gerrard, Coutihno, Skrtel og Flanagan skora mörk Liverpool.
Garðar: 1-3 Kanaríkvikindin eru því miður ekki að fara að gera neitt af viti hér.
 
CHELSEA - SUNDERLAND
Tumi: 2-0
Helgi: 1-0 Týpískt.
Garðar: 4-0 Sundararnir kláruðu sig alveg gegn City í vikunni og hafa enga orku gegn the Strumps á útivelli.
 
EVERTON - MAN UTD
Tumi: 1-1
Helgi: 2-1 Sir David tapar fyrir gamla liðinu sínu, Mirallas og Baines skora fyrir bláa en Mata fyrir rauða.
Garðar: 2-1 Svo einfalt er það...
 
MAN CITY - WBA
Tumi: 2-0
Helgi: 3-2 Olían á undanhaldi. Ef þeir kaupa leikmenn fyrir 300 milljónir punda í viðbót gæti þetta skánað.
Garðar: 5-1 City lætur sig enn dreyma um titilinn en það er of seint eftir hökt síðustu umferða.

Wednesday, April 16, 2014

80. HMMMMM... HM Á NÆSTA LEYTI

Nú er vorið aðeins byrjað að banka á dyrnar á Íslandi og aprílmánuður langt kominn með allar sínar vonir og væntingar. Páskarnir með kærkomnu fríi eru framundan og möguleikarnir á meiri útiveru (og þar með meiri fótbolta) í mildara veðri aukast til muna en þó er reyndar ekkert sérlega vorlegt um að litast í augnablikinu. En það á eftir að breytast. Og svo eru líka stórskemmtilegir tímar framundan fyrir okkur Tuma. Ekki einungis vegna þess að hann kemur til með að eignast litla systur um miðjan næsta mánuð, heldur er N1-mótið á Akureyri í byrjun júlí og svo er auðvitað HM sumar í sumar.


 
Heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2014 hefst fimmtudaginn 12. júní, nánar tiltekið eftir aðeins tæplega 60 daga, með opnunarleik heimamanna í Brasilíu og góðkunningja okkar Íslendinga frá Króatíu. Að jafnaði verður boðið upp á þrjá til fjóra leiki á dag, á meðan á riðlakeppninni stendur, en þann 28. júní hefjast síðan 16 liða úrslitin. 4. og 5. júlí verður spilað í 8 liða úrslitum, undanúrslit verða 8. og 9. júlí og sjálfur úrslitaleikurinn fer fram þann 13. Algjör veisla í heilan mánuð fyrir okkur Tuma og auðvitað alla aðra alvöru knattspyrnuunnendur. Næstu vikur fara eflaust í það hjá manni að lesa og skoða gamlar og nýjar heimildir um HM í gegnum tíðina. Aldrei að vita nema einhverju af því verði deilt á BOLTABULLI. Annars er ekki úr vegi að byrja á því að rifja upp mínar fyrstu HM.

Mín fyrsta minning um Heimsmeistaramótið í knattspyrnu var um mótið í Argentínu árið 1978. Ég man þó ekkert eftir mótinu sjálfu, enda nánast ekkert byrjaður að sparka bolta sjálfur, en man þó vel þegar Argentínumenn urðu heimsmeistarar.


Næstu keppni man ég þó ágætlega eftir. Sumarið '82 horfðum við bræðurnir fullir áhuga á þá fáu leiki sem í boði voru en reyndar var afskaplega takmarkað úrval sem Ríkissjónvarpið bauð upp á í þeirri keppni og fékk Útvarpsráð bágt fyrir meint skilningsleysi gagnvart áhugamönnum um fótbolta. Flestir leikjanna voru sýndir sólarhring seinna (af vídeóspólum sem fengust sendar hingað frá danska ríkissjónvarpinu) og aðeins opnunar- og úrslitaleikurinn fengust sýndir í beinni útsendingu hér uppi á Íslandi - og sá síðarnefndi reyndar aðeins í svart/hvítu! Venju samkvæmt var Ríkissjónvarpið reyndar í sumarfríi í júlí á þessum árum en RUV braut odd af örlæti sínu og gaf tæknimönnum sínum tækifæri á að græja úrslitaleikinn þannig að íslenskir áhorfendur fengju notið hans. Aðra leiki Heimsmeistaramótsins í júlímánuði fengu Íslendingar ekki að sjá. Ítalía vann Þýskaland í úrslitunum og mér finnst enn eins og vitlaust lið hafi unnið HM '82. Samt var Ítalía betri á öllum sviðum.


Heimsmeistarakeppninni '86 var gerð öllu betri skil gagnvart íslenskum skattgreiðendum. Langflestir leikir keppninnar voru í boði Ríkissjónvarpsins og við bræðurnir drukkum í okkur allar þær kræsingar sem boðið var upp á úr þeirri veislu. Seinna átti ég meira að segja Azteka bolta eins og notaður var í keppninni en gleymdi honum einhvern tímann úti á velli og sá hann auðvitað aldrei framar. Leikur Brasilíu og Frakklands var þá líklega besti leikur sem ég hafði séð um ævina og Maradona át náttúrulega þessa keppni með húð og hár. Hann vann hana nánast upp á sitt einsdæmi og mörkin hans gegn Englandi og Belgíu verða náttúrulega sígild til eilífðar. Svo man ég alltaf eftir markinu hans Manuel Negrete hjá Mexíkó gegn Búlgaríu.


Úr keppnunum '82 og '86 getum við bræðurnir líklega enn þann dag í dag þulið upp riðla og milliriðla mótanna, sem og einstök úrslit leikja og jafnvel markaskorara.


Árið 1990 fór keppnin fram á Ítalíu og þar sigruðu Þjóðverjar Argentínumenn, með einu marki gegn engu, í næstleiðinlegasta HM úrslitaleik sem ég man eftir. Mér fannst keppnin reyndar eiginlega ónýt strax í byrjun en þar tóku Kamerún upp á þeirri vitleysu að fara að vinna Argentínu í opnunarleiknum - 1-0! Annað eins hafði aldrei og átt aldrei að geta gerst. Ég horfði á undanúrslitaleik Englands og Þýskalands á risaskjá, í grenjandi rigningu, með systur minni á tjaldsvæði einhvers staðar í Danmörku en þar klikkuðu Chris Waddle og Stuart Pearce báðir á vítum í vítakeppni. Úrslitaleikinn horfði ég síðan á á einhverju torgi í Þýskalandi (líklega Kiel?) og fylgdist með heimamönnum fagna heimsmeistaratitlinum með bjór og Bratwurst. Fannst þetta aldrei spennandi keppni, einhverra hluta vegna, en líklega var það vegna þess að ég missti af stórum hluta seinni parts hennar.


Bandaríkin voru vettvangur HM '94 og einmitt af þeirri sömu ástæðu voru væntingar mínar til keppninnar frekar hóflegar. Heimamenn stóðu sig þó vel í allri framkvæmd og mótið var, ef ég man rétt, bara nokkuð skemmtilegt og með mikið af dramatískum atvikum. Ég man eftir Rússanum Salenko skora fimm mörk á móti Kamerún en þann mann hafði ég aldrei á ævi minni heyrt minnst á fyrir leikinn. Markið hjá Maradona gegn Grikkjum og fagnið hans, áður en hann var síðan sendur heim með skömm, og sjálfsmarkið hans Escobar sem kostaði hann lífið. Enginn velti því marki neitt fyrir sér fyrr en hann var drepinn heima í Kólumbíu nokkrum dögum seinna og HM var þá ennþá í fullum gangi. Endalaus dramtík í gangi en úrslitaleikurinn var samt svo leiðinlegur að Roberto Baggio ákvað að þruma boltanum lengst út fyrir leikvanginn, í vítakeppni eftir leikinn, til að lina þjáningar áhorfenda og ljúka leiknum. Og þar með unnu Brasilíumenn HM loksins aftur í fyrsta sinn síðan 1970.


Eigum örugglega eftir að minnast eitthvað meira á HM á næstu mánuðum...

Friday, April 11, 2014

79. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Og enn er komið að sérfræðingum BOLTABULLS sem ætla að spá í leiki helgarinnar. Annars var Garðar efstur um síðustu helgi og fékk heil 11 stig en Tumi og Helgi fengu báðir 7. Tumi er enn efstur með 196 stig, Garðar hefur 184 og Helgi hefur 163.
 
En hér er komið að leikjum helgarinnar:
 
SUNDERLAND - EVERTON
Tumi: 0-3
Helgi: 1-2 Þetta er einfalt, Sunderland er fallið.
Garðar: 0-2 Leiðinlegur leikur eins og svo margir í þessari umferð.
 
STOKE - NEWCASTLE
Tumi: 1-1
Helgi: 2-0 Rauðrendlingar sigra með mörkum Charlie Adam og Svartrendlingar fikra sig örugglega niður töfluna.
Garðar: 2-1 Þennan leik er Newcastle aldrei að fara að vinna enda hafa þeir ekki skorað mark í deildinni síðan 22. mars þegar þeir drulluðust til að vinna Crystal Palace 1-0. Þeir skora þó eitt á móti Stók.
 
SOUTHAMPTON - CARDIFF
Tumi: 2-0
Helgi: 6-0 Óli Gunnar og norskir meðbræður hans eru hættir.
Garðar: 2-1 Því miður er sá indverski (eða hvað sem hann er?) ekki að fara að eiga Úrvalsdeildarlið á næstunni. Eins gott fyrir Aron Einar að fara að finna sér eitthvað skárra lið.
 
WBA - TOTTENHAM
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3 Tottenham í baráttu um fyrsta meistaratitilinn síðan 1970.
Garðar: 1-2 Erfiður útisigur hjá mínum mönnum. Ade heldur áfram að skora.
 
LIVERPOOL - MAN CITY
Tumi: 2-3
Helgi: 4-2 Martin Skrtel skorar tvö mörk í þessum leik.
Garðar: 1-3 Besta liðið á Englandi vinnur næstskársta liðið í Everton borg.
 
SWANSEA - CHELSEA
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3 Mórinjó þarf ekkert að draga að sér athyglina eftir þennan leik.
Garðar: 0-3 Auðveldur strumpasigur á álftunum.

Friday, April 4, 2014

78. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN

 
Sérfræðingar BOLTABULLS voru almennt fremur hógværir í stigasöfnun sinni um síðustu helgi en í þetta skiptið tók Helgi þó að sér það hlutverk að fá flest stig umferðarinnar. Hann var sem sagt efstur og fékk 7 stig, Garðar var með 4 en Tumi rak lestina og fékk aðeins 3 stig. Tumi er samt enn efstur og hefur nú 189 stig, Garðar hefur 173 og Helgi er með 156.
 
En svona er næsta umferð:
 
MAN CITY - SOUTHAMPTON
Tumi: 2-0
Helgi: 4-0 Shitty svarar hressilega fyrir stigaskortinn um síðustu helgi.
Garðar: 4-1 Næstbesta liðið á Englandi vinnur þennan leik af því að Southampton getur ekki neitt.
 
NEWCASTLE - MAN UTD
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3 Það er sama hversu manjú eru lélegir, rendlingarnir eru í frjálsu falli.
Garðar: 1-2 Markatalan hjá New er 0-7 úr síðustu tveimur leikjum og liðið er á hraðri leið niður í að gulltryggja sér 9. sæti deildarinnar.
 
CHELSEA - STOKE
Tumi: 1-0
Helgi: 1-0 John Terry skorar með skalla á lokamínútunum.
Garðar: 3-0 Móri er búinn að mæra Púlis of mikið á síðustu dögum en eins og allir vita þá mun Púlis-andi svífa yfir Stoke vötnum um ókomna tíð. 
 
EVERTON - ARSENAL
Tumi: 1-2
Helgi: 1-1 Arsenal stimplar sig endanlega úr titilbaráttunni.
Garðar: 1-2 Ars aðeins að rétta úr kútnum eftir afleitt gengi að undanförnu.
 
WEST HAM - LIVERPOOL
Tumi: 0-3
Helgi: 0-1 Múrveggur fyrir framan markið en mínir menn klára með marki Skrtels.
Garðar: 1-3 Ömurlegt að vera með leik hérna úr neðri hlutanum...
 
TOTTENHAM - SUNDERLAND
Tumi: 1-0
Helgi: 2-0 Fallslagur og Spurs nær að snúa mínusmarkatölunni í plús - eða næstum því.
Garðar: 2-1 Auðvelt hjá mínum mönnum.

Thursday, March 27, 2014

77. SPEKINGAR SPÁ Í ENSKA BOLTANN


Þá er víst komið að enn einni helgarspánni og sérfræðingar síðunnar hafa sett sig í startholurnar fyrir leiki umferðarinnar. Fyrst er þó vert að geta þriggja frestaðra leikja sem fræðingarnir voru búnir að spá um, fyrir þremur vikum, en tveir þessara leikja voru spilaðir nú í vikunni. Þetta voru leikir Newcastle og Everton annars vegar og hins vegar Arsenal og Swansea. Garðar fékk tvö stig úr þessum tveimur leikjum en Tumi og Helgi fengu sitthvort eitt stigið á kjaft. Úr leikjum síðustu helgar fékk Tumi hins vegar 9 stig (+1), Garðar fékk 8 (+2) en Helgi fékk 5 stig (+1). Enn er Tumi því efstur í heildarkeppninni og er nú kominn með 186 stig, Garðar hefur nú 169 og Helgi er með 149 stig.

En hér koma næstu spár sérfræðinganna:

MAN UTD - ASTON VILLA
Tumi: 2-0
Helgi: 2-0 Manutd er að gera góða hluti og á eflaust eftir að tryggja sér endanlega hið eftirsótta sjöunda sæti, gera verður tólf mínútna hlé á leiknum á meðan leitað er að boltanum í hári Fellaininini.
Garðar: 2-1 Það væri virkilega freistandi að spá mu tapi en þar sem liðið er á heimavelli ættu þeir hugsanlega að geta unnið Villa & félaga.

CRYSTAL PALACE - CHELSEA
Tumi: 0-3
Helgi: 0-4 Oscar og Hazard skipta þessu bróðurlega á milli sín.
Garðar: 0-3 Auðveldur strumpasigur.

SOUTHAMPTON - NEWCASTLE
Tumi: 1-1
Helgi: 2-1 Lallana með bæði fyrir dýrlingana.
Garðar: 1-1 Örugglega í fyrsta skipti í vetur sem ég spái jafntefli einhvers staðar.

ARSENAL - MAN CITY
Tumi: 0-3
Helgi: 1-0 Þetta er meira óskhyggja en spá.
Garðar: 1-3 Á ekki von á að Arsenal sé að fara gera eitthvað gegn Cittý.

FULHAM - EVERTON
Tumi: 0-2
Helgi: 1-3 Lágstúkuliðið á ekki sjens í bláverjana.
Garðar: 0-2 Felix hinn þýski gæti hugsanlega reynt að hanga eitthvað í Evertonnum en því miður hef ég ansi litla trú á því.

LIVERPOOL - TOTTENHAM
Tumi: 2-1 Súares og Störreds með sitthvort markið.
Helgi: 4-2 Eftir bókinni.
Garðar: 2-1 Þetta verður einn af dómarasköndölum sögunnar en því miður mun það bitna illilega á mínum mönnum.